Stuðningsþjónusta í Hlíðaskóla
Hlíðaskóli er skóli án aðgreiningar með þjónustu fyrir alla nemendur sína. Jafnrétti til náms eru almenn mannréttindi og það er hlutverk skólans að stuðla að alhliða þroska og menntun allra nemenda. Stuðningskennsla er ein þeirra leiða sem skólinn býður upp á til að koma til móts við mismunandi þroska og getu hvers og eins nemanda. Í stuðningskennslu getur verið nauðsynlegt að víkja frá einstökum markmiðum, breyta viðfangsefnum og/eða setja ný markmið.
Skipulag stuðningskennslu
Stuðningskennsla getur verið einstaklingskennsla eða hópkennsla, skipulögð tímabundið eða yfir lengri tíma. Staðsetning kennslunnar getur verið í bekkjarstofu nemenda eða í námsveri.
Áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og eru reglulega lögð fyrir skimunarpróf í þeim tilgangi að finna nemendur sem eiga við námserfiðleika að etja. Deildarstjóri stuðningskennslu hefur umsjón með skipulagi kennslunnar.
Sértækir námserfiðleikar
Tekið er mið af niðurstöðum skimunarprófa s.s. Lesferils, Logos og Talnalykils, auk prófa og kannana umsjónarkennara þegar ákvörðun er tekin um stuðningskennslu fyrir nemendur.
Nemendum í 1. bekk fylgja oft niðurstöður úr Hljóm sem lagt er fyrir í leikskóla. Hljóm er próf sem athugar hljóð- og málvitund leikskólabarna og gefur vísbendingar um hugsanlega námserfiðleika.
- Umsjónarkennarar sækja um stuðningskennslu fyrir nemendur í samráði við foreldra til deildarstjóra stoðkennslu. Í umsókninni kemur fram hver staða nemandans er í námi, hvaða námsþætti nemandinn þarf stuðning við og hvernig komið hefur verið til móts við námsþarfir hans í bekknum. Þar kemur fram hvaða kannanir, próf og/eða greiningar liggja að baki umsókninni.
-
Foreldrar / forsjáraðilar geta óskað eftir stuðningskennslu og fer þá beiðnin til deildarstjóra stoðkennslu sem metur þörfina.
Einstaklingsnámskrá
Einstaklingsnámskráin hefur skýra tengingu við bekkjarnámskrána og þar eru námsáherslur, námsefni og kennsluaðferðir aðlagaðar að þörfum nemandans. Markmið einstaklingsnámskrár eru reglulega metin og endurskoðuð.
Flestir nemendur sem fá stuðningskennslu fylgja bekkjarnámskrá, en einstaklingsnámskrá er gerð fyrir nemendur þegar víkja þarf frá markmiðum og leiðum bekkjarins.
Helstu námsþættir sem nemendur þurfa stoðkennslu í eru lestur, ritun og stærðfræði.
-
Nemendur sem glíma við lestrarerfiðleika geta þurft þjálfun í hljóðgreiningu, þjálfun til að auka lestrarhraða og lestraröryggi, efla lesskilning og leikni í vinnu með texta. Lögð er áhersla á notkun hljóðbóka, leiðréttingaforrita og námstækni.
-
Kennsla í ritun eða vinnu með mál getur falist í skriftarþjálfun, þjálfun í einstökum þáttum hljóðgreiningar, að nýta sér reglur í stafsetningu, þjálfun í málfræði, vinnu með málfræðihugtök og ritun ýmiss konar texta.
-
Nemendur sem eiga í erfiðleikum í stærðfræði geta þurft hlutbundna kennslu, þjálfun grunnaðgerða, hægari yfirferð eða annað námsefni.
Námsver
Kennsla í námsveri fer að mestu fram í námskeiðsformi. Gengið er út frá því að unnið sé með sama efni í bekk á sama tíma og stuðningskennsla fer fram í námsveri, en efnistök geta verið ólík.
Fyrir hvert námskeið eru sett skilgreind markmið, leiðir og námsefni ákveðið. Fjöldi kennslustunda á viku og hve lengi námskeiðið á að standa er ákveðið í upphafi. Þessar upplýsingar eru kynntar nemendum í fyrsta tíma námskeiðs. Í lok námskeiðs er árangur metinn.
-
Sérkennarar í námsveri sinna nemendum sem þurfa tímabundið eða til lengri tíma aðra nálgun í námi en unnið er eftir í bekknum.
-
Sérkennarar í námsveri veita samkennurum stuðning og ráðgjöf um námsefni og leiðir í kennslu nemenda með námsörðugleika.
Fatlaðir nemendur og nemendur með hegðunar-, tilfinninga- og félagslega örðugleika
Þjónusta við þennan nemendahóp er breytileg. Hver nemandi er einstakur, með sín sérkenni og þarfir, sem kennslutilhögun skólans verður að taka mið af.
Markmiðið er að einstaklingsþörfum nemenda sé sem mest mætt á vinnusvæði bekkjarins og í almennri þátttöku í skólastarfinu. Ef þörf er á óskar umsjónarkennari og/eða foreldrar eftir stuðningi/stoðkennslu fyrir nemanda hjá deildarstjóra stoðkennslu.
Markmiðið með félagslegum stuðning er að stuðla að bættri félagsfærni og aukinni félagslegri þátttöku. Umsjónarkennari og starfsmenn stoðþjónustu vinna saman að félagslegum stuðningi. Félagslegur stuðningur nemenda getur falist í:
- skipulegri samvinnu nemenda í litlum hóp
- skipulagðri vinnu með virkni nemenda í frímínútum og frjálsum leik
- vinnu með Cat kassann
- vinnu með félagsfærnisögur
- vinahópum
- vinaliðum
- fræðslu um einelti
Ef ástæða þykir er teymi stofnað í kringum nemandann þar sem unnið er að sameiginlegum markmiðum er varða skólagöngu hans. Teymið er skipað foreldrum, umsjónarkennara og öðrum starfsmönnum skólans sem mest vinna með nemandanum. Í teyminu geta einnig verið aðilar utan skólans sem koma að málefnum nemandans. Tilgangur þverfaglegra teyma er að samhæfa þjónustu. Teymin funda a.m.k. tvisvar á ári og oftar ef þörf er á.