Nám og kennsla
Grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna eftir aðalnámsskrá grunnskóla með Menntastefnu Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.
Í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn og unglingar menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.
Námsmat
Hlíðaskóli er leiðsagnarnámsskóli. Það þýðir að í Hlíðaskóla er námsmat óaðskiljanlegur hlut náms og kennslu. Leiðsagnarnám byggir á að nemandi fái leiðsegjandi námsmat á hverjum degi útfrá hæfniviðmiðum skólanámskrár.
Við lok hvers skólaárs fá nemendur vitnisburð á kvarðanum A – D, fyrir þá hæfni sem nemendur hafa tileinkað sér á tímabilinu.
Kennsluhættir
Unnið er eftir hugmyndafræði leiðsagnarnáms og hefur það að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Tilgangur leiðsagnarnáms er að valdefla nemendur, svo þeir verði færir um að taka ábyrgð á eigin námi. Leiðsagnarnám byggir á fimm stoðum sem saman leiða að jákvæðari námsmenningu þar sem mistök eru nýtt til framfara, markmið og viðmið að settu marki eru skýr og skipulag byggir á samræðum þar sem nemendur fá tækifæri til þess að tjá sig um námsefnið. Saman gegna þessar aðferðir því hlutverki að valdefla nemendur og gera þá virkari og ábyrgari í eigin námi.
Stafræn Gróska
Nemendur í 4. - 10. bekk Hlíðaskóla fá Chromebook tölvu, að láni frá Reykjavíkurborg. Nemendur í 8. - 10. bekk fá að taka tölvuna með heim. Til að nemandi geti tekið tölvuna með sér heim þurfa foreldrar/forráðamenn að samþykkja skilmála Reykjavíkurborgar. Hægt er að samþykkja rafrænt hér.
Nemendur skila tölvunni til skólans að vori og fá hana aftur afhenda í skólabyrjun um haustið. Passa þarf upp á að fylgihlutir, hleðslutæki og penni fylgi tölvunni.
Nemendur í 1. - 3. bekk hafa aðgang að iPad spjaldtölvum.
Upplýsingar um verkefnið Stafræna grósku í Reykjavík
Mentor
Mentor er upplýsingakerfi fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans. Forsjáraðilar og nemendur fá aðgangsorð að Mentor. Á fjölskyldusíðunni sjá forsjáraðilar stundatöflur barna sinna, heimavinnu, námsmat, skólasókn og fleira.
Viðmið um skólasókn
Mikil áhersla er lögð á stundvísi nemenda í skólanum. Öll börn og ungmenni á aldrinum 6 til 16 ára eru skólaskyld og bera foreldrar/forsjáraðilar ábyrgð á því að börnin innritist í grunnskóla, sæki skólann og stundi þar nám.
Ef misbrestur verður á skólasókn ber foreldrum/forsjáraðilum og skólanum að bregðast við. Til þess að þau viðbrögð verði sem árangursríkust hafa grunnskólarnir í Reykjavík sett sér samræmd viðmið og reglur sem þeir vinna eftir.